þetta er allt blekking

skoða

17.11.06

Þetta hérna er ekkert annað en hrein og klár snilld. Vá, segi ég nú bara.


Það var Alfred Hitchcock stemning á Eskifirði í dag. Þegar ég þurfti að bregða mér yfir í íþróttahús skólans sátu nokkrir hrafnar í röð á nærliggjandi grindverki og horfðu allan tímann þegjandi á mig.



16.11.06

Mikið ofboðslega dæmalaust er The Hills Have Eyes ömurlega léleg mynd. Það er ekki oft sem ég verð svona pirraður yfir myndum - bara vegna þess hve misheppnaðar þær eru. Ja hérna hér.

Fyrir þessu mati mínu eru nokkrar ástæður. Hér eru þær helstu:

1. Þessi mynd er auglýst sem spennu- og hryllingsmynd. Hún er hvorki spennandi né hryllileg. Hún er bara subbuleg á köflum.

2. Myndin fjallar um stökkbreyttar mannætur sem búa í afskekktum og yfirgefnum bæ í eyðimörkinni og stunda þá iðju að veiða fólk í gildru og éta það síðan með miklum látum. Allt í lagi með það svosem. En þessar stökkbreyttu mannætur eiga ansi álitlegt og nýtískulegt vopnasafn, m.a. alls kyns byssur. Ég bara spyr: Hver í ósköpunum útvegaði þeim öll þessi vopn?

3. Það var alveg sama hve drepið fólk lá lengi eins og hráviði út um allt - það hætti aldrei að blæða úr því. Þess vegna voru líkin alltaf fersk og góð fyrir mannæturnar, jafnvel þó þau væru búin að liggja í eyðimerkursólinni í einhverja daga.

4. Ein aðalsöguhetjan í myndinni - faðir um það bil eins árs gamals barns - lendir í því að konan hans er myrt og barninu rænt af þessum stökkbreyttu mannætum, þ.e. eftir mikinn bardaga ná mannæturnar sumsé að hlaupa út í buskann með barnið í fanginu. Þar sem maðurinn stendur eftir niðurbrotinn - með hlaðna byssu í höndunum - og horfir á eftir mannætunum ákveður hann að nú sé rétti tíminn til að setjast niður og skipuleggja næstu skref í baráttunni við mannæturnar. Sko. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef svosem ekki oft lent í því að börnunum mínum sé rænt af stökkbreyttum og geðsjúkum mannætum. En ég get sko fjandakornið fullyrt að ef ég lendi einhvern tímann í því þá mun ég andskotann ekki setjast niður og skipuleggja eitt eða neitt. Ég mun hlaupa eins hratt og ég get á eftir helvítunum, sama hvað það kostar.

5. Þessi aðalsöguhetja finnur barnið sitt síðar í myndinni. Sennilega daginn eftir. Í fyrsta lagi: Af hverju átu mannæturnar ekki barnið eins og alla aðra? Í öðru lagi: Af hverju tóku mannæturnar greinilega upp á því að gefa barninu að borða, því það var greinilega í fínu ásigkomulagi þegar faðirinn fann það?

6. Þegar pabbinn fann barnið lá það í rúmi og hjalaði eitthvað út í loftið. Ein mannætan var að horfa á sjónvarpið og sneri baki í föðurinn sem var vopnaður. Hann læddist því hljóðlega framhjá mannætunni, lagði frá sér vopnið, tók upp barnið og reyndi að laumast út. Er einhver annar þarna úti sem hefði ekki byrjað á því að ráðast á helvítis mannætuna og reyna að tortíma henni?

7. Þessi mynd var svo léleg að ég gat ekki slökkt á henni, heldur hélt áfram að fylgjast með hristandi höfuðið og baðandi út öngum yfir vitleysuganginum og asnalegheitunum í henni. Hún rændi því af mér tæpum tveimur klukkustundum af ævinni. Ég þoli ekki myndir sem gera slíkt.

Ég ætla ekki að telja upp fleiri ástæður í bili. En þær voru fleiri.

Mikið var gott að fá smá útrás fyrir að úthúða þessari ömurlegu mynd. Persónulega held ég að þetta sé neikvæðasti póstur sem ég hef nokkurn tímann sett inn á þetta blogg.



12.11.06

Hið merkilegasta sem er í gangi þessa dagana er að börnin hér á heimilinu stunda það af kappi að segja eitthvað sem kemur illa út fyrir mig. Sesselja hefur t.d. gert það að vana sínum að gjamma það yfir heilu hópana ef ég tek einum poka of mikið þegar ég er að versla. Og nú hefur Karl Jóhann ákveðið að nota nýfengna talhæfileika sína til sömu illu hluta.

Ég er með exem lengst inni í eyranu. Til að útrýma því lét læknirinn mig fá dropa sem eiga að uppræta þennan fjanda. Ég á að láta þrjá dropa í einu falla í eyrað á mér tvisvar á dag. Það hljómar ekki svo flókið verkefni í fyrstu. En þegar við bættist að dropaglasinu fylgdu þau ströngu fyrirmæli að eyrað mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum snerta dropana áður en þér féllu úr stútnum varð málið skyndilega flóknara. Það er nefnilega glettilega erfitt að láta dropa hitta með mikilli nákvæmni ofan í eyrað á sér ef engin snerting má eiga sér stað. Ég hef því þurft að leita á náðir Huldu með þetta vandamál og fengið hana til að láta dropana falla á réttan stað. Ferlið er það að ég leggst með höfuðið í kjöltuna á henni og læt vinstra eyrað snúa upp. Hún tekur síðan flöskuna og kreistir þrjá dropa inn í eyrað á mér. Allt saman mjög einfalt í framkvæmd. Svo þegar droparnir eru búnir að koma sér fyrir inni í hlustinni rís ég upp og held áfram að gera allt þetta merkilega sem ég er að gera.

Í dag lá ég með höfuðið í kjöltunni á Huldu og var að búa mig undir að fá ískalda dropana inn í eyrað með tilheyrandi óþægindum, þegar við fengum heimsókn. Kalli litli er kominn á þann aldur að vilja alltaf verða fyrstur til dyra þegar einhver bukkar hús okkar, sem og verða fyrstur til að svara í símann þegar hann hringir. Hann hljóp því eins og fætur toguðu til dyra þegar bjallan hringdi.

Það næstsíðasta sem ég heyrði áður en droparnir féllu í eyrað og byrgðu mér heyrn var að einhver spurði þann litla: "Hæ vinur minn, hvað er pabbi þinn að gera?" Og það síðasta sem ég heyrði var að elskulegur sonur minn svaraði: "Pabbi er að liggja á henni mömmu."


Hér er samviskuspurning fyrir ykkur:

Er einhver þarna úti sem þolir Mikka mús? Þá er ég ekki bara að tala um teiknimyndirnar þar sem hann talar með hátíðniröddinni, heldur líka um sögurnar í blöðunum.



Home



Weblog Commenting by HaloScan.com