þetta er allt blekking

skoða

30.5.04

Það er kannski kominn tími til að játa opinberlega nokkuð sem ég var næstum búinn að gera mig sekan um fyrr í mánuðinum. Ég ætla ekki að ganga svo langt að tala um að ég hafi næstum verið búinn að fremja glæp - en reyndar er aldrei að vita hve langt þetta mál hefði farið ef steinninn hefði byrjað að rúlla.

Þetta hófst allt með því að hljómsveitin Stuðmenn ákvað að troða upp á Eskifirði einhvern tímann um daginn. Þetta olli auðvitað mikilli spennu hér í bænum og í nálægum sveitum og heyrði ég af því að fólk ætlaði að mæta hingað alla leið frá Djúpavogi og jafnvel að koma lengra að. Stuðmenn eru enda ákaflega vinsæl hljómsveit og sjálfsagt ekki versti kosturinn sem maður getur fengið á ball. Fyrir mig persónulega var þetta ágætis frétt. Ekki svo að skilja að ég hefði verið verið kominn á þörfina að komast á sveitaball, heldur höfðu örlögin hagað því þannig nokkrum dögum áður að ég hafði tekið að mér - í ljósi þess að ég væri "prófessjonal" blaðamaður - að halda utan um skólablaðsútgáfu 9. bekkinga. Sá ég mér því þarna leik á borði að hugsanlega væri hægt að nota tækifærið og fá hljómsveitina til að hitta nokkra krakka í viðtal fyrir blaðið.

Það er skemmst frá því að segja að það reyndist auðsótt mál að fá að hitta hljómsveitina. Ég sendi Agli tölvupóst þar sem ég bar upp erindið og hann svaraði mér um hæl með jákvæðu svari. Sagði hann að þau Ragnhildur myndu hitta krakkana í ró og næði upp úr klukkan sjö og búa til eitthvað skemmtilegt spjall úr þeim fundi. Þessi áætlun átti eftir að breytast töluvert. Stuðmenn steingleymdu að mæta í viðtalið og þar sem ómögulegt reyndist að ná í þá þurfti ég einfaldlega að bíða á ballstaðnum eftir að þeir kæmu svo ég gæti gripið þá glóðvolga við að ganga í salinn. Það var vinna sem reyndi á þolinmæðina, en sem betur fer bar hún árangur.

Um klukkan hálfellefu, um þremur og hálfum tíma eftir að við ætluðum að hittast, sá ég Egil og Ragnhildi koma gangandi í veðurblíðunni. Ég gaf krökkunum merki um að vera tilbúnir og svo þegar þau gerðu sig líkleg til að koma sér inn í húsið vatt ég mér upp að þeim, kynnti mig og bar upp erindið. Það var eins og ég hefði slegið þau í andlitið, áfallið yfir gleymskunni var svo mikið. Egill jesúsaði sig í bak og fyrir, baðst í mörgum orðum afsökunar á að hafa gleymt okkur og sem sárabót knúsaði hann mig og faðmaði nokkrum sinnum. Þau settust síðan við borðið hjá krökkunum og ætluðu að fara að hefja viðtalið þegar Ragnhildur benti á að sennilega væri betra næði til viðtals úti. Þetta þótti þjóðráð og því fóru allir og settust út. Krakkarnir gleymdu einhverju af dótinu sínu á borðinu og þar sem mér fannst ég bera ábyrgð á öllu sem þau höfðu tekið með sér hirti ég allt sem þar var og tróð í vasana mína.

Ég fylgdist síðan með þegar krakkarnir létu spurningarnar dynja á Stuðmönnunum og tóku svörin upp á segulband. Þetta tók sjálfsagt 15 mínútur í allt, enda sýndu þeir hljómsveitarmeðlimir, sem ekki hafa það að atvinnu að vera leiðinlegir, iðrun sína á gleymskunni í verki með því að leyfa krökkunum að klára spurningalistann sinn. Svo fengu krakkarnir meira að segja að koma inn og taka myndir, fylgjast með þeim taka hljóðprufu og fengu lúxusmeðferð í heildina.

Það var um þetta leyti sem ég tók eftir því að Egill var farinn að vafra um staðinn og spyrja fólk hvort það hefði séð gleraugun hans einhvers staðar á flakki. Hann spurði á barnum og spurði fólk sem sat við borðið sem viðtalið átti fyrst að fara fram við. Hann fór út og spurði fólk sem þar var og hann spurði mig hvort ég hefði séð þau. Allir sögðu nei og hann varð pirraðri og pirraðri við hvert nei. "Ég þarf á þessum gleraugum að halda, þetta voru ný og rándýr gleraugu," sagði hann og hristi hausinn.

Ég hugsaði ekkert mikið meira um þetta, heldur vonaði bara að gleraugun kæmu fljótlega í leitirnar. Við kvöddumst svo bara þegar ég þurfti að fylgja krökkunum út og þegar þau voru farin heim til sín rölti ég af stað áleiðis heim til mín. Það er ekki laust við að ég væri sigri hrósandi yfir því hvernig kvöldið fór og ég var nett stoltur yfir sjálfum mér að hafa haft rænu á því að fara bara og grípa manninn glóðvolgan fyrst hann hafði gleymt mér. Ég hugsaði um atburði kvöldsins með bros á vör og næstum ósjálfrátt setti ég hendurnar ofan í vasana á úlpunni. Þar fann ég fyrir einhverjum torkennilegum hlut. Forvitni mín var vakin og ég dró hlutinn upp úr vasanum og leit á hann. Mér til undrunar var það gleraugnahulstur merkt Agli Ólafssyni.

Nú loksins fór minnið að virka. Ég hafði tekið þetta gleraugnahulstur af borðinu í þeirri trú að einn 9. bekkinganna hefði gleymt því. Ég var meira að segja viss um að ein stelpan ætti þau, þó ég hafi í sjálfu sér aldrei séð hana með gleraugu. Það að hulstrið skyldi reynast merkt Agli Ólafssyni hafði einhverra hluta vegna ekki reynst mér nein vísbending um að hann ætti þau.

Það var um ekkert annað að ræða en að snúa til baka, hitta Egil, afhenda honum gleraugun og viðurkenna mistökin fyrir honum. Ég náði að framkvæma þrjá fyrstu liðina í áætluninni; ég sneri við, hitti Egil, afhenti honum gleraugun og var að því kominn að viðurkenna fyrir honum vitleysuna þegar hann rak upp hálfkæft óp og faðmaði mig fast að sér. Nálægðin var svo mikil að ég fann bæði af honum rakspíralyktina og út úr honum matar- og drykkjarlyktina frá því fyrr um kvöldið. "Þetta var frábært," sagði hann á meðan hann hélt enn utan um mig, "ég var kominn með heilmiklar áhyggjur af þessu. Ég hefði orðið brjálaður ef ég hefði ekki fundið gleraugun." Svo losaði hann takið, hélt um báðar axlirnar á mér, leit í augun á mér og spurði: "Hvar í ósköpunum fannstu þau? Ég var búinn að leita út um allt."

Ég hef oft hugsað út í það hvað myndi gerast ef stórstjarna, íslensk eða erlend, myndi faðma mig hraustlega að sér og spyrja mig síðan einhverrar persónulegrar spurningar. Ég sá það alltaf fyrir mér að ég myndi lyppast niður og segja stjörnunni allan sannleikann. En þegar á reyndi varð reyndin önnur. Ég leit í augun á Agli, brosti sakleysislega og sagði síðan: "Ég fann þau þarna úti," og benti eitthvað út í loftið, máli mínu til stuðnings. Eftir á að hyggja veit ég að ég var ekki að skrökva. Ég var úti þegar ég fann þau.

En Agli var nokkuð sama, enda í sjöunda himni yfir að finna gleraugun sín aftur. Hann faðmaði mig aftur nokkrum sinnum að sér, baðst afsökunar á að hafa gleymt að hitta okkur fyrr um kvöldið og þakkaði mér mörgum sinnum fyrir að hafa fundið gleraugun. "Veistu það, Jón Svanur, að þú bjargaðir kvöldinu fyrir mér." Ég þakkaði fyrir mig og sagði kurteislega að ég hefði í raun ekki gert neitt. "Ekki neitt? Ég get alveg sagt það hér og nú, að ég veit ekki hvað ég hefði gert án þín. Þú bjargaðir kvöldinu."

Svo kvaddi hann mig með virktum og sagðist ætla að tileinka mér lag í kvöld. "Það er það minnsta sem ég get gert fyrir manninn sem bjargaði kvöldinu fyrir mig," sagði hann og bað að heilsa öllum sem ég þekki, áður en hann stökk upp á svið, blikkaði mig og kvaddi að hermannasið.

Ég gekk út og þóttist ekkert taka eftir öllu fólkinu sem hafði horft á samskipti okkar og dauðlangaði greinilega til að spyrja mig hvern fjárann ég hefði gert til að fá þessi blíðuatlot frá Agli. Það spurði mig samt enginn. Sem var eiginlega synd því ég var með svarið á reiðum höndum: "Tja, ég bjargaði bara fyrir honum kvöldinu með smá reddingu." Svo hefði ég bara yppt öxlum kæruleysislega, og sagt: "En það var ekkert mál samt."

Þetta var hins vegar stórmál þegar maður hugsar út í það. Ef út í það er hugsað er ég nefnilega sá eini í bænum sem átti einhverja möguleika á að finna gleraugun. Og ég klikkaði ekkert frekar en fyrri daginn.



Home



Weblog Commenting by HaloScan.com