þetta er allt blekking |
að skoða |
11.11.06
Ég er nú ekki vanur að koma hingað inn til að tuða yfir sjónvarpinu, en hvað er eiginlega í gangi með þessa svokölluðu "náttúrulífsþætti" (og ég nota það orð með miklum fyrirvara) sem sýndir eru í sjónvarpinu snemma á laugardögum? Ég hef svosem aldrei séð þennan þátt áður, þannig að ég ætti kannski ekki að dæma of fljótt. En miðað við það sem ég sá í dag virðist þátturinn ganga út á að hópur vísindamanna - sem líta hreint út sagt út fyrir að vera annaðhvort mjög sérvitrir eða hreinlega kolruglaðir upp til hópa - talar um dýrategundir sem munu verða til eftir 200 milljón ár. Dýrin eru öll meira og minna tölvuteiknuð og allir vísindamennirnir tala af mikilli alvöru um líkamsbyggingu þeirra og hæfileika til að komast af úti í náttúrunni.
Í þættinum í dag fræddist ég um smokka sem hermdu eftir sjónvarpstækjum, flugfiska sem flögruðu yfir sjávarborðinu þar til þeir lentu í stormi og höfðu ekki vit á því að steypa sér aftur í sjóinn heldur fuku út í eyðimörkina, hoppandi eyðimerkursnigla með gaddabrynjur, vígtennt neðanjarðarblóm sem lifðu á þessum sniglum, átta tonna risasmokkfisk sem lifði í frumskóginum og gekk um á fálmurunum í stað þess að synda með þeim og síðan einhvurslags slímugan kjötætusvepp sem fór stundum inn í risasmokkfiskinn og náði stjórn á heilanum á honum þar til smokkurinn hnerraði sveppinum út. Allt saman var þetta ægilega vel tölvuteiknað og vísindamennirnir birtust síðan öðru hverju og útlistuðu það fyrir áhorfendum hvernig þessar verur lifðu, nærðust og hegðuðu sér. Ég starði hins vegar bara á sjónvarpið með opinn munn. En svo þegar ég sá atriðið um slímsveppinn skildi ég hvað þessir þáttagerðar- og vísindamenn höfðu greinilega verið að borða.
Ég geri ráð fyrir því að flestir foreldrar verði afar stoltir af barninu sínu þegar það sýnir framfarir í lestri og talningu. Það veldur mér hins vegar fyrst og fremst vandræðum.
Hún Sesselja mín, sem er fimm ára og er farin að læra að lesa, skrifa og reikna, er farin að fylgjast með mér eins og varðhundur þegar ég fer í búðir að versla. Sérstaklega leggur hún augu og eyru við þegar ég er spurður að því hvað ég vilji fá marga poka undir vörurnar sem ég var að kaupa. Ég get alveg viðurkennt það að ég hef aldrei nokkra einustu tilfinningu fyrir því hve marga poka þarf til að selflytja eitthvað verulegt magn af vörum út í bíl. Reyndar skil ég aldrei að blessuðu afgreiðslufólkinu skuli virkilega detta í hug að spyrja hvað maður ætli að fá marga poka, þegar maður er með risastóra hrúgu á afgreiðsluborðinu fyrir framan sig og er ekki einu sinni byrjaður að raða í einn einasta poka. Hvernig í ósköpunum á maður að reikna þetta út? Það er ekki eins og maður setji nákvæmlega jafn mikið magn í alla poka, auk þess sem maður reynir yfirleitt að raða vörunum þannig í pokana að þær skemmi ekki allar hverja aðra. Mér finnst þetta hálfbjánalegt allt saman. En ég giska nú samt alltaf. Stundum giska ég á fjóra poka. Stundum giska ég á sex. Einu sinni giskaði ég á milljón poka í Krónunni og þá giskaði afgreiðslustúlkan bara á fimm. Hvað um það, ég giska semsagt alltaf á einhverja tölu sem ég áætla í fljótheitum að geti varla verið mjög fjarri lagi og svo fer ég bara að raða. Og ég verð að viðurkenna að ég er ekkert að spá í því hvort ég raði í réttan pokafjölda eða ekki. Það hefur að mestu leyti með það að gera með þá hugmyndafræði mína að ef ég er að kaupa fyrir 15-25 þúsund krónur í einhverri búð, þá er mér bara andskotans sama þó ég taki óvart aðeins of mikið af einhverjum plastpokum sem kosta 15 krónur stykkið. Það hefur hins vegar komið í ljós, nokkrum sinnum, að henni Sesselju minni er hreint ekki eins sama og mér. Hún leggur nefnilega alltaf við hlustir þegar ég er spurður að því hve marga poka ég vil og svo fylgist hún vandlega með því hve marga poka ég læt ofan í kerruna. Og ef útreikningarnir mínir standast ekki þá lætur hún mig heyra það miskunnarlaust. Eins og í dag, þegar ég giskaði á það í Krónunni að ég myndi nota fjóra poka. Svo kom Pétur Marinó og hjálpaði mér að raða í poka. Þegar við vorum búnir að raða og vorum að fara af stað úr versluninni kallaði Sesselja eins hátt og hún gat yfir mig og alla aðra viðstadda: "PABBI! ÞÚ TÓKST FIMM POKA. ÞÚ SAGÐIR VIÐ KONUNA AÐ ÞÚ ÆTLAÐIR BARA AÐ FÁ FJÓRA POKA!!" Allir litu á okkur. Ein kona leit ofan í kerruna mína og hristi höfuðið með vanþóknun. Önnur kona lyfti annarri augabrúninni á meðan hún horfði á mig flýta mér burt. Ég reyndi að réttlæta þetta þannig að ég væri svo góður viðskiptavinur í búðinni að ég ætti inni að minnsta kosti einn plastpoka. En það heyrði það enginn nema Pétur. Ekki einu sinni Sesselja heyrði það, enda átti hún alltof annríkt við að tauta í barminn á sér að ég hefði tekið alltof marga poka. 8.11.06
Þessa dagana einkennist líf mitt af því ferli að þegar einu verkefni lýkur tekur hið næsta við. Nú er ég sumsé að vinna að ritgerð í bókmenntafræði.
Það gengur vel að mestu leyti. Það veldur mér þó nokkrum truflunum að við hliðina á tölvunni minni er plastflaska sem hefur að geyma um tvo desilítra af vatni. Öðru hverju berst torkennilegt hvæshljóð frá flöskunni. Puffffff, segir hún. Alveg upp úr þurru. Puffffff. Það er engu líkara en að hún sé að reyna að hvísla einhverju að mér - ég hef leyft mér að kafa í hyldýpi þeirrar ímyndunar að hún sé að reyna að lauma að mér einhverri mikilvægri aðvörun. Mér finnst þetta óþægilegt.
Þegar maður sekkur sér á kaf ofan í námsbækur og reynir þannig að skerpa aðeins á kunnáttu sinni í ýmsum fræðum fer ekki hjá því að maður spyrji sig spurninga sem maður hefði líklega ekki spurt sig fyrr. Það er eðlilegur fylgifiskur þess að kafa dýpra ofan í fræðin en maður hefur áður gert - a.m.k. ef maður gerir það með opnum huga.
Margar spurningar leituðu á huga minn á meðan ég var á kafi í setningafræðinni að undanförnu. Þær tengdust allar orðflokkum og setningaskipan. Ég afgreiddi þær flestar á tiltölulega skömmum tíma. Ein spurning olli mér samt meiri heilabrotum en aðrar og hef ég ekki enn komist að viðunandi niðurstöðu. Ég er að hugsa um að kasta henni fram og sjá hvort einhverjir íslenskunördar séu ekki með svar á reiðum höndum: Hvernig ætli Sem, sonur Arkar-Nóa, hafi fallbeygt nafnið sitt?
Annars er það að frétta að ég náði að ljúka við ritgerðina mína sem fjallar um hið spennandi efni íslenska orðflokka. Ég leyfði Huldu að lesa hana og henni fannst hún æðisleg, svo ég vitni í hennar orð. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvort ég leyfi ykkur að lesa hana líka - það fer að einhverju leyti eftir því hvort kennaranum finnist hún æðisleg líka.
Á meðan ég met þetta ætla ég að segja ykkur dálítið annað: Hér á Eskfirði þarf maður helst að vera mjög tímanlega í öllu. Maður má alls ekki vera of seinn að framkvæma hlutina því starfsmenn fyrirtækja hér í bæ sýna alla jafna fádæma stundvísi og miskunnarleysi þegar kemur að því að loka búllunni og fara heim. Hér er verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum lokað í síðasta lagi fimm sekúndum yfir lokunartímann, yfirleitt er þeim lokað nákvæmlega á sekúndunni, en stundum kemur meira að segja fyrir að þeim er lokað um tveimur mínútum fyrirfram, til öryggis. Hins vegar byrjar starfsfólk að gefa manni illt auga um tíu mínútum fyrir lokun og reynir að gera allt andrúmsloft eins óþægilegt og hægt er, s.s. með því að byrja að slökkva ljós og ganga frá á áberandi hátt í kringum mann. Ástæða þess að ég segi ykkur frá þessu er sú að ég lenti í því, þegar ég ætlaði að skila ritgerðinni á pósthúsið, að ég mætti þremur mínútum of seint á staðinn svo það var vægast sagt búið að loka. Mér sýndist meira að segja af verksummerkjum að það væri löngu búið að loka og gott ef starfsmenn voru ekki bara byrjaðir að borða kvöldmatinn. Þetta þótti mér ekki nógu gott, því nú þurfti ég að halda á umslaginu með ritgerðinni alla leið til baka og barma mér yfir því að hafa farið sneypuför til að heilsa upp á læstar pósthúsdyr. Það kom hins vegar í ljós að ekkert er svo með öllu illt. Ég fór nefnilega fyrir einhverja rælni að lesa betur yfir ritgerðina og þá kom í ljós að ég hafði næstum sent frá mér ritsmíð sem innihélt flennistóra og hreint út sagt skelfilega villu á áberandi stað. Ég þori varla einu sinni að hugsa þá hugsun til enda hvernig hefði farið fyrir ritgerðinni ef þessi villa hefði lufsast í gegn. Usss, segi ég nú bara við sjálfan mig þegar ég hugsa um villuna. Ég var sumsé að taka dæmi um fallorð og sagði, í einhverri tilraun til að vera sniðugur, að það væri þolfallsnafnorð með greini og hliðstæðu ábendingarfornafni. Mér bara dauðbrá þegar ég las yfir þetta og rak augun í þennan óskapnað. Eins og það sé til eitthvað fyrirbæri í íslensku sem kallast þolfallsnafnorð með greini og hliðstæðu ábendingarfornafni. Þannig að í staðinn breytti ég þessu í þágufallsnafnorð með hliðstæðu ábendingarfornafni og veiku lýsingarorði. Mikið er ég feginn að hafa rekið augun í þetta.
Það er greinilegt hvort bloggið er lesið meira, mitt eða Nönnu. Ég tók eftir því í gær að lesturinn á síðunni minni hafði rokið upp. Það eru varla meira en 20-30 hræður sem lesa bloggið mitt nokkuð reglulega, en nú vildi allt í einu svo til að ég fékk 130 heimsóknir á einum degi. Ég gladdist auðvitað mjög mikið og hugsaði með mér að nú væri heimurinn loks farinn að meta rithæfileika mína að verðleikum. Fyrir forvitni sakir fletti ég síðan upp hvaðan gestirnir hefðu komið. Það var þá sem kom í ljós að sennilega var þetta fólk ekkert sérstaklega að eltast við mig persónulega, því um 90 þeirra höfðu heimsótt mig í gegnum hlekk frá matargúrúinu.
Ég er samt ekkert svekktur sko. Ég tek öllu svona plöggi fegins hendi. Nú þarf ég bara að finna fleiri aðferðir til að láta fólk hlekkja á mig. 6.11.06
Þessa stundina er ég að skrifa ritgerð um orðflokka. Undir flestum kringumstæðum myndi ég kenna sárt í brjósti um veslings kennarann sem þarf að lesa yfir slík ósköp hjá stórum nemendahópi. En það er svosem óþarfi því hann kom sér í þessi vandræði sjálfur.
5.11.06
Um daginn var aðdáun mín vakin svo ekki sé meira sagt.
Tildrög þess voru þau að Hulda mín var eitthvað að vesenast. Hún var sumsé lent í þeirri klemmu að þurfa að baka fyrir tvær afmælisveislur á elliheimilinu og var hún í mikilli taugaveiklun meðal annars að leita að uppskriftum að sykurlausum kökum, þar sem annað afmælisbarnið er víst sykursjúkt. Var hún meira að segja orðin svo örvæntingarfull að hún spurði mig af öllum mönnum hvort ég gæti útvegað henni slíka uppskrift. Hún veit samt að ég veit ekkert um bakstur. Þaðan af minna veit ég um bakstur fyrir sykursjúka, enda hefur mér alltaf þótt hugtakið sykurlaus afmæliskaka hálfgerð þversögn. En ég er maður hinna góðu lausna og því datt mér strax í hug að hafa bara samband við hana Nönnu og athuga hvort hún ætti ekki einhverjar slíkar uppskriftir á lager. Hugsaði ég með mér að ef Nanna gæti ekki reddað okkur gæti það enginn. Ég sendi henni því línu í tölvupósti og bað um hjálp. Það stóð auðvitað ekki á svari og Nanna sendi mér strax nokkrar vefslóðir með uppskriftum, auk þess sem hún sendi eigin hugleiðingar um þessar uppskriftir. Og það var einmitt þar sem aðdáun mín var vakin, því í lok bréfsins varaði hún mig sérstaklega við einni vefsíðunni og sagði að ég gæti sjálfsagt ekkert notað hana því svo margar uppskriftir þar innihéldu döðlur. Þetta þótti mér mikil og góð aðvörun. Svona á persónuleg þjónusta að vera og mættu fleiri taka sér Nönnu til fyrirmyndar. Þess má síðan geta að eftir því sem ég best veit heppnaðist baksturinn prýðilega. Að minnsta kosti hafa ekki borist neinar fréttir af dauðsföllum ennþá. En þar sem Hulda er náttúrulega að baka fyrir elliheimilið í bænum ætti það svosem ekkert að þurfa að tákna neitt sérstakt þó einhverjir hrykkju upp af í miðri máltíð.
|
|