þetta er allt blekking

skoða

19.3.05

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að Rýnirinn tók mig í gegn og gagnrýndi bloggið mitt málefnalega. Það er auðvitað bara gott mál og persónulega þykir mér sérlega skemmtilegt að svona frægur bloggari skuli gera mig að umfjöllunarefni sínu – það er að segja, ef hægt er að tala um að sá sé frægur sem enginn veit hver er.

En þó umfjöllun hans sé rökstudd og málefnaleg og beri þess vitni að hann hafi a.m.k. kosti skoðað ágætlega stóran hluta af blogginu mínu áður en hann kvað upp sinn dóm, þá verð ég að lýsa því yfir að ég er alls ekki sammála honum. Hann heldur því nefnilega fram að ég sé ekkert sérlega fyndinn. Það er alrangt hjá honum. Ég er mjög fyndinn. Það sést greinilega á viðbrögðum fólks sem ég tala við, því það er alltaf að hlæja að mér, hvort sem ég reyni að vera fyndinn eða ekki. Sem dæmi um það má nefna að í hvert einasta sinn sem ég reyni að koma Huldu til lags við mig, þá hlær hún alltaf jafnmikið. Það segir nú meira en mörg orð.

Ég er samt sammála Rýninum í einu. Mér sjálfum fannst ég nefnilega líka miklu fyndnari á fyrstu mánuðum bloggsins míns. En þá var ég líka alveg rosalegur.

Semsagt, þó Rýnirinn hafi haft örlítið til síns máls þá var heildarumfjöllunin ekki rétt. Það gat aldrei gengið upp að ráðast á húmorinn. Miklu betra hefði verið fyrir hann að gagnrýna það að ég ætti það til að líta dálítið stórt á mig. Þá hefði hann hitt í mark, því það er alveg satt að ég mætti stundum vera örlítið hógværari. En það er líka það eina. Ef ég væri aðeins hógværari væri ég fullkominn.


Ég er ekki sáttur. Það er alltaf verið að lofa mér einhverju, eða verið að gefa í skyn að góður möguleiki sé á að ég fái eitthvað, áður en hætt er við án þess að nokkur einasta skýring sé gefin á því hvers vegna landslagið breyttist svona skyndilega.

Um daginn var gefið sterklega í skyn að ég gæti fengið geislasverð til að nota í kennslunni minni. Sá ég því fyrir mér fallega gult eða grænt sverð sem ég gæti sveiflað með tilþrifum ef nemendur mínir væru eitthvað að gleyma sér í náminu. Þetta gekk meira að segja svo langt að ég heyrði næstum hljóðið í sverðinu þegar ég sveiflaði því. Zzzúmm. Zzzúmm. Zzzúmm.

Ég fékk svosem sverð í gær. En það er hvorki gult né grænt, heldur er það bleikt. Og það segir ekki zzzúmm. Það segir zzzzoink. Það er ekki nærri því eins áhrifaríkt.



14.3.05

Ég fór í starfsmannaviðtal í dag.

Meðal þeirra spurninga sem lagðar voru fyrir mig var, "Hvaða búnað þykir þér að vanti í skólann til að gera skólastarfið betra?" Ég var ekki í nokkrum vafa um hverju ég ætti að svara. "Mig vantar geislasverð sem segir zzzúmmm þegar maður sveiflar því." Aðstoðarskólastjórinn kinkaði kolli, skrifaði hugmyndina niður á blað og setti það ofan í skúffu.

Ég er mjög vongóður um að hjólin séu farin að snúast.



Home



Weblog Commenting by HaloScan.com